150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

aðgerðir í þágu smærri fyrirtækja.

30. mál
[13:56]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég held við séum ekkert fjarri hvor öðrum í því. Það sem ég meina er að ég held að allir hafi gott af góðri, almennri, fjölbreyttri menntun en síðan á að mæta börnum á styrkleikum sínum og ekki láta þau líða fyrir vangetu eða erfiðleika á ákveðnum sviðum. Ég er t.d. með frábæran iðnaðarmann heima hjá mér sem átti í erfiðleikum með að fá meistaraprófið af því að hann náði ekki dönskunni. Stundum erum við kaþólskari en páfinn. Við eigum ekki að láta svoleiðis hluti stoppa, ekki að láta kerfin stoppa hæfileikaríkt fólk. Við erum kannski líka dálítið gjörn á að horfa á hlutina sem vandamál. Ég man eftir því að fyrir nokkrum árum las ég grein eftir kennara sem var að vinna með krakka með athyglisbrest og hún var alveg heilluð af því hvað þau voru sköpunarrík. Hún breytti þessu orði yfir í „fjölhygli“. Þá strax verður orðið jákvætt og leiðir hugann að því hvernig þau hugsa frekar en hvaða takmarkanir hugsun þeirra hafi. Ég held að það sé bara lykillinn. Það er betra fyrir menntakerfið að þora og leyfa endurnýjun með það í huga að gefa öllum börnum jafnt tækifæri. Við erum lítið land, við erum fámenn þjóð og við þurfum allar hendur á árar til þess að sigla skútunni svona sæmilega vel inn í framtíðina og við eigum að hafa það að leiðarljósi.