150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

sveitarstjórnarlög.

49. mál
[14:17]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er aðhaldsákvæði, aðhald til þess að tryggja að hægt sé að hafa frumkvæði að því að kalla fólk á teppið, bæjarstjórnina eða eitthvað því um líkt til borgarafundar, eða ef allt um þrýtur efna til beinnar atkvæðagreiðslu. Það er endapunktur beina lýðræðisins. En beint lýðræði er svo miklu meira. Ef allir aðrir hlutar beins lýðræðis eru í góðu lagi, ef samtalið, samráðið og allir þeir hlutar eru í góðu lagi, þarf aldrei að grípa til frumkvæðisins eða handbremsunnar sem slíkrar þannig að þessi tillaga leggur til tvöfalt kerfi, annars vegar það að kalla til bæjarfundar og hins vegar íbúakosningar, sem er lokapunkturinn. Að hafa bæjarfund að frumkvæði íbúa eykur á samtalið. Ef það er ekki í lagi þarf tvímælalaust að grípa þar inn í.

Ég tel að við þurfum nauðsynlega og á öllum stigum stjórnkerfisins, ekki hvað síst hér á Alþingi og hvað ríkisstjórnina varðar, að fá fleiri svona tól. Það er mjög kaldhæðnislegt að það má nota málskotsrétt og frumkvæðisrétt íbúa í sveitarfélögum gagnvart sveitarstjórnum en ekki málskotsrétt eða frumkvæðisrétt íbúa gagnvart stjórnvöldum á Alþingi eða ríkisstjórn. Mér finnst það pínu kaldhæðnislegt að við gefum íbúum sveitarfélaga — og það finnst mér gott — frumkvæðisrétt en ekki íbúum almennt, gagnvart okkur sjálfum, þann rétt. Ég hlakka því til að heyra stærra samtal myndast þar sem við stígum lengri og fleiri skref í átt að beinu lýðræði.