150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

sveitarstjórnarlög.

49. mál
[14:22]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, íbúakosningar um einstök mál, mál Pírata. Ég er eiginlega bara kominn til að styðja þetta mál. Ég styð það heils hugar. Þarna er um einfalt lýðræði að ræða og við eigum að stuðla eins mikið og við getum að því að varðveita hið dýrmæta lýðræði. Okkur er gjarnt að taka því sem sjálfsögðum hlut en það er ekki sjálfsagður hlutur. Við sjáum það bara annars staðar í veröldinni. Það er langt frá því að það sé sjálfsagt.

Ég er eiginlega sammála því að 10% er hátt hlutfall. Ef við hugsum okkur 20.000 manna sveitarfélag þá eru 10% 2.000 manns. Það getur verið fjári erfitt að fá 200, hvað þá 2.000. Ef við værum í Reykjavík værum við að tala um 20.000 eða fleiri. Við vitum það sjálf þegar við erum að fara í kosningar að við þurfum að safna ákveðnum fjölda undirskrifta og fyrir litla flokka er það bara stórmál í sjálfu sér. Þess vegna segi ég: 10% þröskuldur? Ef það væri þröskuldurinn held ég að væru mjög fáir flokkar hérna á þingi. Þannig að ég styð þetta heils hugar og vonandi fer þetta í gegn. Þá sigrar lýðræðið. Ég myndi helst vilja, t.d. eins og með borgaraþing og annað, að það væri líka mjög auðvelt að koma slíku í gegn vegna þess að oft er þörf og stundum algjör nauðsyn.