150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

sveitarstjórnarlög.

49. mál
[14:33]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ábendinguna um visku fjöldans sem er gott innlegg í þessa umræðu. Það er svo áhugavert með visku fjöldans að hún er dálítið vandmeðfarin. Það skiptir máli hvernig maður beitir henni. Í grunnatriðum er viska fjöldans góð að meðaltali. Það er grunnatriði í visku fjöldans. En í stærra samhengi um þekkingu fjöldans og hugmyndaauðgi fjöldans, sem er að vissu leyti hluti af visku fjöldans, býr það að tala við fleiri til fleiri hugmyndir, fleiri sjónarmið komast að. Það gerir að verkum að við missum ekki af hlutum sem mér finnst ekki vera augljósir en einhverjum öðrum finnst vera augljósir. Ef við höfum umræðuna í mjög lokuðum hópi missum við af þessum augljósu ábendingum sem einhverjir aðrir kunna að hafa. Það er í lýðræðisútgáfu visku fjöldans það verðmæta. Á meðan viska fjöldans í klassískum skilningi er að geta giskað á og notað meðaltal ágiskana. Ef fólk giskar t.d. á hversu margar baunir eru í dollu er meðaltalssvarið yfirleitt nokkuð gott. En ef maður er að spyrja flókinna spurninga er ekkert meðaltal til í því. Aftur á móti eru það hugmyndirnar sem við erum að leita að þar. Þannig að ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta innlegg og mjög gott að hafa það til hliðsjónar.