markviss fræðsla um kynjafræði, kynfrelsi, sjálfsákvörðunarrétt og þýðingu samþykkis í kynferðislegum samskiptum.
Herra forseti. Hér er aldeilis áhugavert mál á ferðinni. Ég vil aðeins eiga orðastað við þingmanninn varðandi viðvarandi fræðslu, ekki bara tímabundin átök, eins og hann nefndi. Mér finnst sá andi svífa ögn yfir vötnum að hér sé í raun lítið sem ekkert verið að gera í dag. Ég vil nefna nokkur atriði. Í námsefni sem verið að kenna í grunnskóla í dag er eitt af markmiðum eins kaflans, með leyfi forseta:
„Að nemendur átti sig á mikilvægi þess að stunda ábyrgt kynlíf með samþykki beggja aðila og einnig hvað kynferðisleg áreitni og ofbeldi fela í sér.“
Sömuleiðis er í hæfniviðmiðum samfélagsgreina — lífsleikni var á sínum tíma sérstök námsgrein en var tekin út sem sérgrein og sett inn í samfélagsgreinar — með leyfi forseta, gert ráð fyrir að nemandinn geti:
„Sýnt fram á skilning á mikilvægi þess að bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum, fyrir mannréttindum, félagslegu réttlæti, jöfnuði og helgi mannlegs líf.“
Sömuleiðis, með leyfi forseta: „Að nemandinn geti sett sig í spor fólks með ólíkan bakgrunn og viðhorf, á ýmsum stöðum og tímum.“
Aftur, með leyfi forseta: „Rökrætt gildi jafnréttis og mannréttinda á öllum sviðum samfélagsins og þekki almenn ákvæði um mannréttindi.“
Og með leyfi forseta, í lokin: „Ígrundað eigin getu til aðgerða og gert sér grein fyrir afleiðingum gerða sinna eða aðgerðaleysis.“
Mér finnst svífa hér yfir tilhneiging til þess að leita stöðugt út úr kerfinu til þess að reyna að ná árangri í stað þess að horfa inn í kerfið til að ná árangri í því sem er hér verið að fara fram á. Vegna þess að ásókn mjög margra aðila, hvers kyns samtaka, viðurkenndra eða ekki viðurkenndra, að komast inn í kerfið, inn í skólana er rosalega mikil, að fá að eiga snertiflöt við nemendur. — Ég ætla að fá að halda áfram í næsta andsvari.