markviss fræðsla um kynjafræði, kynfrelsi, sjálfsákvörðunarrétt og þýðingu samþykkis í kynferðislegum samskiptum.
Herra forseti. Hér er verið að tala um talsverða fjármuni. Ég velti aðeins fyrir mér: Hvað ef við látum þá fjármuni renna til þeirra aðila sem eru sannarlega að gera þetta í skólum, sem er aðeins vitnað í hér? Þingmaðurinn nefndi sænsku menntamálastofnunina. Eigum við að setja peningana bara í Menntamálastofnun til að fara í að búa til markvisst námsefni í lífsleikni?
Ég vil aftur nefna, hafi þingmaðurinn ekki heyrt það, sem er mjög mikilvægt að menn skilji, það sem gerðist fyrir örfáum árum síðan þegar lífsleikniefni var tekið út sem sérnámsgrein og sett inn í samfélagsgreinar þar sem menn kenna landafræði, sögu, jarðfræði o.s.frv. Hún er tekin út sem sérgrein og sett inn í aðra grein. Það gerist vegna þess að við erum með viðmiðunarstundatöflu inni í námskrá. Ef á að stórefla þessa fræðslu þarf það að vera á kostnað einhvers annars. Í dag er ekki bara einhver fræðsla um þessi mál, það er beinlínis markvisst námsefni. Í grunnskólunum þar sem ég þekki hvað best til er verið að kenna mjög margt af þessu í dag og fræða um mjög margt af þessu. Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni viðvarandi fræðslu. Ég lét það verða mér svolítinn þyrni í augum áðan. Þetta hljómar svolítið — og ég vona að hann taki það aftur upp — eins og að það sé lítið sem ekkert verið að gera í málaflokknum í dag. Það er bara mjög mikið verið að gera. Auðvitað er alltaf hægt að gera betur en þá er það einmitt á kostnað einhvers annars í t.d. viðmiðunarstundatöflu grunnskóla.