150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

markviss fræðsla um kynjafræði, kynfrelsi, sjálfsákvörðunarrétt og þýðingu samþykkis í kynferðislegum samskiptum.

165. mál
[15:05]
Horfa

Flm. (Jón Steindór Valdimarsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hv. þingmaður gerði sérstaklega að umtalsefni 194. gr. almennra hegningarlaga sem einmitt var breytt nýlega, eins og kom fram í máli mínu og ég held að hún viti fullvel. Þar er talað um samþykki. En nú víkur hv. þingmaður málinu svolítið að refsirammanum og hvort ástæða sé til þess að nýta hann betur, eins og ég skildi það. Í sjálfu sér tekur þessi þingsályktunartillaga enga beina afstöðu til refsiramma eða refsinga. Hún gengur út á að fólk almennt og ekki síst þeir sem uppfræða og fjalla um þessi mál innan kerfisins sé vel upplýst og meðvitað um eðli þessara brota, hvaða áhrif þau hafa, áhrif á brotaþolann og — ég veit ekki alveg hvernig ég á að orða þetta — hvernig þeir sem verða fyrir brotum af þessu tagi eru meðhöndlaðir og hvernig meðferð þeir fá í kerfinu. Það er aðalatriðið. Ég sjálfur er ekki mjög refsiglaður maður. Almennt talað, þó að mál séu auðvitað vissulega mörg mjög sorgleg og mjög alvarleg, (Forseti hringir.) veit ég ekki alveg hvort við fækkum brotum með því að herða refsingarnar. Aðalatriðið er að koma í veg fyrir að þessi brot verið framin.