150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

markviss fræðsla um kynjafræði, kynfrelsi, sjálfsákvörðunarrétt og þýðingu samþykkis í kynferðislegum samskiptum.

165. mál
[15:07]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég geri mér grein fyrir því að hér er aðallega verið að fjalla um markvissa fræðslu og hvernig réttarvörslukerfið okkar heldur utan um mál þolenda og hvernig síðan skólakerfið sér um þá fræðslu sem við vildum gjarnan að unga fólkið okkar fengi. Við skulum segja að ég hafi nýtt mér aðstöðuna. Ég velti gjarnan fyrir mér nákvæmlega þessu. Ég er kannski mjög refsiglöð kona að þessu leyti, alveg andstætt hv. þingmanni. Sum mál finnast mér þannig vaxin. Þess vegna velti ég því upp. Annað hefur komið vel fram í frumvarpinu og áherslurnar er ég sannarlega sátt við. En það var aðallega þetta sem vakti fyrir mér. Ég var að hugsa um refsirammann. Ég held að hann hafi bara aldrei verið nýttur. Þó að það sé ekki í beinu sambandi við markvissa fræðslu felur fræðslan í sér sjálfsákvörðunarrétt okkar. Þegar einhver hefur hugsanlega brotið á okkur endar það vonandi með því að viðkomandi er látinn svara til saka, ef hann hefur níðst á einhverjum gegn vilja hans. Þetta hefur vakið undrun mína. Refsiramminn hefur ekki verið nýttur en hann er allt að 16 ár. Það er þar sem ég er.