150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

markviss fræðsla um kynjafræði, kynfrelsi, sjálfsákvörðunarrétt og þýðingu samþykkis í kynferðislegum samskiptum.

165. mál
[15:09]
Horfa

Flm. (Jón Steindór Valdimarsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil mætavel, þegar um alvarleg brot er að ræða, að fólki finnist stundum eins og ekki sé tekið á þeim af nægilega mikilli hörku varðandi refsingar. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að forvarnagildi refsinga á mörgum sviðum sé takmarkað. Þá er spurning hver sé tilgangurinn með refsingunni. Er það auga fyrir auga, tönn fyrir tönn? Það er auðvitað sjónarmið. En erum við að koma í veg fyrir brot? Erum við að betra viðkomandi? Erum við að hjálpa þeim sem braut af sér? Erum við hjálpa þeim sem varð fyrir brotinu með þungum fangelsisdómum? Ég veit það ekki.

Ég hef ekki kannað það en ég hef á tilfinningunni að dómar á þessu sviði hafi þrátt fyrir allt verið að þyngjast aðeins. Það er tilfinning mín, án þess að ég sé sérfræðingur á því sviði. En síðan þarf líka að hafa í huga, þegar við ræðum um refsirammann í hegningarlögunum, að þegar hann er nýttur til fulls er yfirleitt um að ræða fleiri brot en eitt. Það er um ítrekuð brot að ræða þar sem kemur til þess að menn fara nálægt þolmörkum refsirammans, ef svo má segja. En ég ítreka þá skoðun mína að ég held að það sé affarasælast að við gerum allt sem við getum til að reyna að koma í veg fyrir að svona brot verði framin og að þeir sem fyrir þeim verða fái eins góða meðhöndlun og hægt er að veita í kerfinu og að við reynum að sjá til þess að þessum brotum fækki, ekki síst að öll brot verði rannsökuð og mál fái réttláta meðferð.