150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

markviss fræðsla um kynjafræði, kynfrelsi, sjálfsákvörðunarrétt og þýðingu samþykkis í kynferðislegum samskiptum.

165. mál
[15:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni fyrir hans ábendingar. Af reynslunni að dæma veitir okkur ekkert af því að fá þessa fræðslu hér á þingi. En ég vil líka benda á í þessu samhengi afleiðingarnar af því ofbeldi sem þarna er um að ræða, afleiðingarnar fyrir þá einstaklinga sem lenda í því. Þetta eru einstaklingar sem fótunum er kippt undan í lífinu. Einstaklingar sem bíða þess kannski aldrei bætur það sem eftir er ævinnar. Þess vegna verð ég að taka undir með hv. þm. Ingu Sæland um dómaframkvæmdir í þessum málum. Því miður vitum við að þeir einstaklingar sem hafa orðið fyrir nauðgun eða sifjaspelli upplifa oft að dómskerfið endurtaki ofbeldið. Það er skelfilegt að við skulum enn vera í þeirri stöðu að fórnarlömb séu í þeim skelfilegu aðstæðum að ekki sé gripið inn í og dómskerfið umvefji þau ekki og hjálpi þeim á allan hátt heldur valdi oft á tíðum enn meiri skaða.

Þetta er vandmeðfarið mál en okkur ber skylda til að verja þessa einstaklinga og þá sérstaklega þá sem eru viðkvæmastir fyrir og geta ekki varið sig sjálfir. Þá er ég að tala um börn og fatlaða einstaklinga og þá sem eru í þeirri aðstöðu að þeir hafa ekki nokkra möguleika á að verja sig sjálfir. Þá á réttarkerfið og koma og verja þá.