markviss fræðsla um kynjafræði, kynfrelsi, sjálfsákvörðunarrétt og þýðingu samþykkis í kynferðislegum samskiptum.
Herra forseti. Ég held að það sé hárrétt að við erum sem samfélag smátt og smátt að átta okkur betur og betur á því hversu alvarlegar afleiðingar brot af þessu tagi hafa í lífi einstaklingsins, langt fram yfir áverka eða eitthvað slíkt. Það hefur ævilöng áhrif á þá sem verða fyrir brotum af þessu tagi. Á þessu erum við smátt og smátt að átta okkur og við erum að bregðast við því.
Ég vil að það komi skýrt fram að ég tel að margt sé vel gert. Það hefur margt breyst, við megum ekki gleyma því. En ég held að flestum, ef ekki öllum, sé ljóst að hægt er að gera enn betur til þess að draga úr eða koma í veg fyrir brot af þessu tagi með því að allir átti sig á því hvað má og hvað má ekki og hvaða afleiðingar það hefur ef menn gera það sem ekki má.
Auðvitað er það þannig að í málum af þessu tagi erum við að stærstum hluta, þó alls ekki öllum, að tala um afbrot, um refsiverða háttsemi. Auðvitað togast þar á sjónarmið um að allir fái réttláta málsmeðferð, þar með taldir þeir sem eru sakaðir um glæpi af þessu tagi. Það verðum við að tryggja. En ég held að við getum alveg gert það samhliða því að, eins og hv. þingmaður orðaði það, við umvefjum þá sem fyrir þessum brotum verða til þess að þeir fái sem besta meðferð og að það sé dregið eins og nokkur kostur er úr erfiðri upplifun þessara aðila.