150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

markviss fræðsla um kynjafræði, kynfrelsi, sjálfsákvörðunarrétt og þýðingu samþykkis í kynferðislegum samskiptum.

165. mál
[15:23]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er að mörgu leyti sammála honum um að við erum að gera ýmsa góða hluti í þessu, en betur má ef duga skal. Við verðum líka að hugsa út fyrir kassann og passa okkur á því. Þeir einstaklingar sem lenda í þessari aðstöðu eru margir hverjir skaddaðir fyrir lífstíð. Því fyrr sem er gripið inn í og því fyrr sem eitthvað er gert fyrir þessa einstaklinga, því meiri líkur eru á því að ekki sé verið að eyðileggja líf þessa fólks það sem eftir er og að skaðinn verði varanlegt ör á sálarlífinu. Auðvitað verðum við líka að passa upp á það að hugað sé að því að þeir sem ekki fer á milli mála að fremja þessi afbrot haldi fullum réttindum í gegnum allt kerfið.

Við erum á krossgötum. Ég held að við séum að breyta um sjónarhorn. Við erum á réttri braut með því sem hefur skeð að undanförnu með #metoo-hreyfingunni og því sem spratt upp úr henni. Við sjáum þetta smátt og smátt síast inn. Ef við höldum áfram á þessari braut og pössum okkur á því að einbeita okkur að því að koma í veg fyrir þessi brot og passa upp á þá sem lenda í þeim held ég að við séum á réttri vegferð og getum öll tekið þátt í því og stutt það.