150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

mat á umhverfisáhrifum.

90. mál
[15:32]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vildi koma hingað upp því að mig undrar svolítið þetta frumvarp frá hv. þingmönnum Flokks fólksins. Ég er eiginlega svolítið hinum megin þar sem ég myndi frekar vilja einfalda og létta á umhverfi smávirkjana — nú ætla ég kannski að einbeita mér að smávirkjunum þar sem ég þekki þær betur — og létta umsóknarferlið sem snýr að þeim. Það er ekki svo einfalt að maður byggi smávirkjun upp á nærri 10 MW án þess að fara í nokkurt mat. Það er alveg skýrt að allar smávirkjanir undir 200 kW heyra undir leyfisveitingakerfi sveitarfélaganna. Þar undir geta náttúrlega fallið allar smávirkjanir og bændavirkjanir til eigin nota, það er rétt. En smávirkjanir sem hafa uppsett afl undir 200 kW kunna einnig að vera tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar og það er heilmikið ferli sem fylgir þeim einnig.

Við erum náttúrlega tala um náttúruvernd og loftslagsmál í sama vetfangi en smávirkjanir eru umhverfisvænir orkugjafar og stuðla að minni útblæstri óæskilegra efna. Mannvirki og náttúrurask eru nær að fullu afturkræf. Þetta eru rennslisvirkjanir. Þarna er ekki landsvæði drekkt undir uppistöðulón. Þegar maður kemur að svona smávirkjun ber ekki mikið á þeim. Ég get nefnt dæmi. Ég kom að Húsafelli núna í haust og þar eru fjórar virkjanir í sömu ánni og það þurfti virkilega að benda mér á hvar þær væru til þess að ég áttaði mig á því. Það er bara verið að nýta það rennsli sem er til staðar, ekki að búa til nein lón eða stór mannvirki. Stöðvarhúsin eru kannski á við litla sumarbústaði.

Þannig að við erum svolítið að gera hér úlfalda úr mýflugu. Við ættum frekar að reyna að byggja undir þessa starfsemi sem víðast því við erum með því að styrkja dreifikerfið sem er víða mjög veikt. Ég hef bent á það áður í þessum stól að við gætum styrkt dreifikerfið og þar með lækkað rekstrarkostnað. Það væri ein leið til þess að jafna raforkukostnað í dreifbýli sem er orðinn fjórðungi hærri en í þéttbýli. En ef við komum á virkjunum sem eru meiri en 200 kW eru þær tilkynningarskyldar til Skipulagsstofnunar og þá tekur við heilmikið ferli. Ég hef fylgst með t.d. virkjunum sem er verið að byggja fyrir vestan og eru 400–600 kW. Það má segja að nær allar virkjanir á Vestfjörðum séu smávirkjanir. Við erum ekki með það stórar virkjanir. Ég held að það megi segja að þetta séu allt virkjanir sem eru mjög náttúruvænar, ef við getum kallað það svo, og öll mannvirki. Það eru nokkrir tugir virkjana um allt land og miðgildi þeirra að stærð er líklega um og undir 1 MW. Þær eru ekki mikið stærri en það þótt hægt sé að gera þær stærri.

Til að ráðast í gerð 400 kW virkjunar þarf maður að fara til Skipulagsstofnunar og þá tekur við heilmikið ferli. Maður þarf að standa skil á gróðri í kringum svæðið, þó að röskunin sé ekki meiri en á við að rækta eitt tún í landi bónda. Ef landið liggur að á þarf að skoða hvort einhver áhrif verði á vatnalíf og silungsveiði og aðra veiði. Það þarf að telja fugla. Þetta tekur nokkur ár. Ég veit til þess að virkjanir í stærri kantinum — þá erum við að tala yfir 1 MW — hafa frekar farið í umhverfismat en að leggja í tvíhliða kostnað því að þetta hefur stundum verið sent til baka frá Skipulagsstofnun. Síðan er náttúrlega allt ferlið kæranlegt, eins og annað. Þessir aðilar hafa lagt í fullt umhverfismat til að einfalda fyrir sjálfum sér kerfið og minnka kostnað.

Við erum að tala um aukna eftirspurn eftir raforku um allt land. Það gengur illa að byggja upp flutningskerfi okkar til þess að dreifa því rafmagni sem þegar er framleitt í stórum virkjunum. Við erum að tala um mjög viðkvæm svæði eins og Vestfirði. Við erum að tala um Snæfellsnes, og fyrir austan og norðan, alls staðar er hægt að virkja með smávirkjunum sem hverfa hreinlega í umhverfið og eru mjög styrkjandi fyrir dreifikerfið. Þegar öllu þessu er lokið, þegar búið er að telja fiskana og athuga gróðurinn og fuglalífið, þá fer þetta allt inn í Skipulagsstofnun til skoðunar og þeir geta svo aftur sent það til baka og krafist frekara umhverfismats eða mats á umhverfinu og jafnvel farið út í heildstætt umhverfismat. Síðan er hægt að kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu til umhverfisráðherra og þá gefst lögvörðum hagsmunaaðilum náttúrlega tækifæri til að gera athugasemdir.

Ferlið allt í kringum smávirkjanir er mjög flókið. Ég hef í undirbúningi þingsályktunartillögu sem gengur frekar út á að einfalda þetta til þess að styrkja dreifikerfið, til að efla atvinnusköpun í dreifðum byggðum. Við ættum frekar að horfa til Norðmanna: Allar smávirkjanir undir ákveðnum megavattafjölda heyra þar bara undir orkustofnun. Hún fer yfir þetta ferli. Við erum alltaf svolítið kaþólskari en páfinn þegar kemur að öllum leyfisveitingum og reglum en þeir treysta orkustofnun sinni til að fjalla um þetta. Það held ég að við gætum alveg gert hérna vegna þess að við erum komin með töluverða reynslu, margra áratuga reynslu, af smávirkjunum og gerð þeirra og hvað þær gera fyrir okkur.

Ég held að við ættum að fara okkur hægar og fara jafnvel yfir á hinn endann og skoða frekar hvernig við getum létt undir með og byggt upp atvinnusköpun sem á sér stað um allt land.