150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

mat á umhverfisáhrifum.

90. mál
[15:45]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka Höllu Signýju Kristjánsdóttur hjartanlega fyrir að leiðrétta mig, að ég skuli ruglast á dreifikerfi og flutningskerfi. Eitt er þó alveg víst að engu verður dreift frá Rarik ef það er ekki til flutningskerfi sem Landsnet byggir fyrir þá. Við hljótum að geta verið sammála um það.

Annað er hitt að hv. þingmaður segist vera mikill náttúruverndarsinni og þá get ég náttúrlega ekki með nokkru lifandi móti áttað mig á því hvað sé athugavert við að hlutirnir fari í umhverfismat þannig að náttúran fái að njóta vafans. Ég held að ef hlutirnir eru eðlilegir og allt er í lagi og engum vafa undirorpið og ekki er verið að ganga á náttúruna að einu eða neinu leyti muni þetta umhverfismat ganga í gegn og viðkomandi getur þá reist sínar smávirkjanir sem hv. þingmaður telur að séu jafnvel grundvöllurinn að raforkuöryggi Íslendinga. Ég tel að við búum nú að mun stærra og öflugra kerfi en svo að við þurfum að reiða okkur á smávirkjanir. Ég a.m.k. vona að svo sé.

Þannig að ég er enn á þeim stað að ég geri mér grein fyrir því að yfir 30% af framleiddri orku skilar sér ekki þangað sem hún ætti að skila sér af því að við höfum ekki enn þá getað reist lagnir sem til þarf til þess að geta dreift henni um landið. Ég er enn þá stödd þar.