150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

mat á umhverfisáhrifum.

90. mál
[15:47]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, við verðum náttúrlega bara að vera sammála um að vera hvor á sínum endanum. Við hljótum að ná saman að lokum. En ég er hérna t.d. með smábækling frá Skipulagsstofnun með leiðbeiningum um tilkynningaskyldar vatnsaflsvirkjanir með uppsett afl að 10 MW. Ef flett er í gegnum hann sést að það er ekkert einfalt að setja upp smávirkjun. Það kostar og það þarf að fara í heilmikið umhverfismat (Gripið fram í.) þó að það sé ekki hið stóra umhverfismat sem við tölum um. Og þessar virkjanir geta haft, svo ég endurtaki mig, minni áhrif en einhver mannvirki sem standa þar við hlið.

Ég get nefnt dæmi. Ég fór til Akureyrar um daginn. Þar í miðjum kaupstaðnum stendur virkjun, smávirkjun. Maður sér bara stöðvarhúsið sem er við veginn, sem er bara lítið og nett með fallegum arkitektúr. Hinum megin við ána er steypustöð og af henni er umtalsvert meiri sjónmengun en þessari litlu virkjun.

Ég held við séum að gera úlfalda úr mýflugu í þessum efnum. En það er gott að þessi mál séu til umfjöllunar og það skiptir máli að við finnum góðan farveg fyrir smávirkjanir um allt land.