150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

mat á umhverfisáhrifum.

90. mál
[15:49]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða frumvarp Flokks fólksins um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, með síðari breytingum, um vatnsorkuver og vindbú. Við erum að biðja um að smávirkjanir undir 10 MW í vatni og 2 MW í vindbúum fari í umhverfismat. Hvers vegna? Jú, það segir sig sjálft. Ný kynslóð er að vakna upp við það að náttúran þarf að hafa forgang og á að vera númer eitt, tvö og þrjú. Áðan var talið upp í sambandi við náttúruna og matið að ef þetta væri gert eins og við setjum það upp í frumvarpinu þyrfti að fara að huga að lífríkinu, fiskum og fuglum. Ég myndi segja að inni í því ættu að vera fleiri gerðir lífríkja svo sem skordýr og fleira sem svona smávirkjanir munu hafa áhrif á við árbakka.

Það stakk mig þegar hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir sagði áðan að setja mætti tvö eða þrjú stöðvarhús við á og það sæist varla, þetta væri bara eins og einn sumarbústaðir. Hún orðaði það sem svo að þetta væri eins og eitt tún á bóndabæ. Við vitum það líka að eitt tún þýðir jafnvel framræslu mýrar. Við erum einmitt að snúa því við út af bindingu koltvísýrings. Öll svona röskun á lífríki vatnsfalla hefur áhrif. Okkur ber skylda til þess að sjá til þess að þannig sé að farið að ekki sé verið að rústa náttúrunni. Við vitum aldrei hvað er til staðar á þeim stað sem við ætlum að skella niður virkjun. Þar geta verið ýmis verðmæti, t.d. söguleg. Við vitum það ekki. Það hefur komið í ljós að þegar er byrjað að grafa einhvers staðar geta komið upp sögulegar minjar. Við vitum líka að það getur verið ýmislegt annað í náttúrunni sem er einstakt á viðkomandi stað sem við værum þá að eyðileggja fyrir næstu kynslóð. Við eigum ekki að gera það.

Það furðulegasta er að náttúran sé ekki númer eitt, tvö og þrjú látin njóta vafans og ekki sé búið að sjá til þess að dreifikerfi og flutningskerfi séu þannig úr garði gerð að við nýtum þá orku sem við höfum eins vel og hægt er, nýtum hana bara 100%. Við eigum að byrja á réttum enda og sjá til þess að ekki tapist orka bara vegna þess að við erum ekki með nógu gott flutningskerfi.

Það er ýmislegt sem fylgir virkjunarkostum, sérstaklega ef við tökum líka vindorkuna. Við erum með spaða til að knýja og framleiða vindorku. Við vitum nú þegar að þetta veldur gífurlegum fugladauða. Þetta er sjónmengun. Við vitum að framþróunin er hröð. Það er byrjað að fjalla um sjávarfallavirkjanir og einnig erum við með varmaorkuskipti í farvatninu. Framtíðin er að finna upp nýjar aðferðir til að framleiða orku. Mannskepnan hefur undanfarin 200–300 ár valdið mesta skaða á náttúrunni sem hefur orðið í gegnum árþúsundin. Við virðumst algerlega stjórnlaus í því að valda náttúrunni óafturkræfum skaða.

Þess vegna ber okkur skylda til að vera í samræmi við náttúruna. Ef við ætlum að virkja foss hefur það sjónræn áhrif. Það hefur áhrif hvar við setjum niður vindmyllur. Við þurfum að hugsa: Erum við að setja þær niður á berar klappir þar sem er ekkert fuglalíf og enginn skaði hlýst af eða erum við að setja þær þar sem þær geta valdið stórskaða? Þess vegna er umhverfismat nauðsynlegt. Það er á hreinu að þótt virkjun sé tekin út í umhverfismati mun það ekki stoppa hana ef hún er þeirrar gerðar að hún valdi lágmarksskaða á náttúrunni og megi fjarlægja hana nánast skaðalaust.

Ég segi fyrir mitt leyti að við eigum að samþykkja frumvarpið því að með því tökum við málstað náttúrunnar og það er það sem við þurfum að gera. Um það er krafa í þjóðfélaginu í dag, sérstaklega hjá börnunum okkar, að við höfum náttúruna númer eitt, tvö og þrjú og hugsum okkar gang áður en við völdum tjóni á henni.