150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

tekjuskattur.

89. mál
[16:06]
Horfa

Flm. (Brynjar Níelsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum. Mál þetta varðar gengishagnað. Þarna kemur að vísu í salinn aðalmaðurinn, sá sem á þetta frumvarp, sá sem ég hljóp í skarðið fyrir, eins og ég hef gert svo oft áður.

Þetta mál lætur ekki mikið yfir sér. Það er eingöngu verið að breyta skylduákvæði í heimildarákvæði en það er þannig í lögum um tekjuskatt að þar segir að draga skuli gengistap frá gengishagnaði ársins og færa mismuninn til tekna sem gengishagnað. Með lögum nr. 61/2008 bættist við ákvæðið sú regla að mismuninn skyldi færa til tekna með jafnri fjárhæð í þrjú ár frá og með því reikningsári þegar gengishagnaður fellur til. Það er sem sagt skylda að dreifa þessu með jöfnum hætti á þrjú ár en frumvarpið gengur út á að það verði eingöngu heimilt. Það sé sett heimildarákvæði frekar en að það sé skylda. Þessi kvöð verði felld niður og í stað þess verður um valfrjálsa heimild að ræða þannig að fyrirtækjunum er heimilt en ekki skylt að dreifa greiðslu skatts af gengishagnaði í allt að þrjú ár. Frumvarpið hefur engin áhrif á tekjur ríkissjóðs og því þurfa menn ekki að hafa áhyggjur af því. Þetta mun flýta greiðslu undir flestum kringumstæðum, flýta greiðslu skatts af gengishagnaði, sem ætti þá að vera betra fyrir ríkissjóð.