150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

fjárfestingaleið Seðlabankans.

[15:30]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Nú þegar Ísland hefur verið sett á lista FATF yfir ósamvinnuþýð ríki í vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka vil ég ræða við hæstv. ráðherra um það sem Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, hefur kallað, með leyfi forseta, „ein sú skýrasta opinberu peningaþvættisleið sem nokkurn tímann hefur verið framkvæmd“. Þetta sagði hann í Silfrinu í gær. Þórður Snær er hér að vísa til hinnar svonefndu fjárfestingaleiðar Seðlabanka Íslands sem komið var á fót árið 2012 og gerði ýmsum aðilum kleift að koma með gjaldeyri inn í íslenskt hagkerfi og fá að launum 20% virðisauka á gjaldeyriskaupum umfram almenning.

Virðulegur forseti. Stuttu fyrir hrun komu ýmsir aðilar sem höfðu betri aðgang að upplýsingum en hinn almenni borgari a.m.k. hundruð milljarða króna út fyrir landsteinanna og hluta fjárins var komið fyrir á aflandseyjum. Ætla má að hluti þessara peninga hafi átt heima í þrotabúum og hafi ekki verið skattlagður sem skyldi eða skattlagður yfir höfuð.

Í leiðara Þórs Snæs þann 17. október sl. er fjárfestingaleiðinni er lýst svona, með leyfi forseta:

„Í gegnum þá leið var hægt að ferja peninga sem faldir höfðu verið erlendis til Íslands, leysa út tugprósenta gengishagnað, fá 20 prósent virðisaukningu á féð og kaupa eignir á Íslandi eftirhrunsáranna á brunaútsöluverði. En mikilvægast af öllu var að þá fengu þeir heilbrigðisvottorð frá Seðlabanka um að peningarnir þeirra væru hreinir.“

Hvort sem það var satt eða ekki.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Er nema von að við lendum á gráum lista þegar sjálfur Seðlabankinn er galopinn fyrir peningaþvætti? Ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort henni finnist ekki tilefni til þess að Alþingi skipi rannsóknarnefnd til að fara ofan í kjölinn á fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands þar sem bankinn neitar að afhenda fjölmiðlum upplýsingar um hverjir nýttu sér leiðina og sér í lagi þegar bankinn viðurkennir sjálfur að hafa ekki almennilega yfirsýn yfir það hversu stór hluti peninganna sem fór þessa leið hafi komið frá aflandsfélögum.