150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

íslenskt bankakerfi og sala á hlutum ríkisins í bönkunum.

[15:55]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem ég tel mjög þarfa. Ég undirstrika að hér er á ferðinni mjög stórt og mikilvægt mál. Bankakerfið í landinu er mikilvægur vettvangur fyrir fjármálaviðskipti og það hefur mikla þýðingu fyrir efnahagslífið í heild sinni að vel takist til í þeim efnum. Það er ástæða til að flýta sér hægt þegar uppi eru umræður um ákvarðanir þegar kemur að skipulagi bankakerfisins og þá ekki síst hver ætti að vera eignarhlutur hins opinbera. Þannig stendur á, eins og hér hefur verið rifjað upp, að hann er umtalsverður. Þá er þess að gæta að í því felst að sjálfsögðu mikið tækifæri. Tækifærið felst í því að ríkið getur í krafti síns umtalsverða eignarhlutar haft mikil áhrif á hver verður skipan bankamála í landinu í framtíðinni.

Undanfari ákvarðana um þetta er vönduð stefnumótun á grundvelli ítarlegrar umræðu. Hæstv. ráðherra rifjaði upp að hér hefði verið lögð fram ítarleg skýrsla, hin svonefnda hvítbók, og hún er góð svo langt sem hún nær. Meginatriðið er að við verðum að gæta þess að nýta vel það tækifæri sem við höfum til að taka ákvarðanir um skipan þessara mála með farsælum og heillavænlegum hætti til framtíðar í þágu íslenskra hagsmuna, íslenskra heimila og íslenskra atvinnufyrirtækja.