150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

íslenskt bankakerfi og sala á hlutum ríkisins í bönkunum.

[16:08]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Hér hefur ríkisstjórninni orðið tíðrætt um þá áhættu sem ríkinu og þar af leiðandi skattgreiðendum er búin við að eiga hlut í fjármálafyrirtækjum. Ég vil hins vegar snúa þessu við, herra forseti. Lítum á þá áhættu sem almenningur býr við þegar einkaaðilar reka nánast allt bankakerfið. Það tók einkarekið bankakerfi einungis fjögur ár að keyra hér allt í kaf síðast, í heimssögulegt þrot þar sem tapið var nánast helmingurinn af allri Marshall-aðstoð Bandaríkjanna til allra ríkja Evrópu eftir gjöreyðingarstríð. Það er sömuleiðis afar fróðlegt að sjá að hinn einkarekni Arion banki virðist vera í talsvert meiri erfiðleikum en hinir tveir ríkisreknu bankarnir. Arion birti afkomuviðvörun fyrir nákvæmlega viku, herra forseti. Auðvitað munu einkaaðilar gegna hlutverki á fjármálamarkaði, en ættum við ekki að líta á fjármálamarkaðinn eins og við lítum á önnur innviðakerfi sem ríkið kemur að? Að ríkið eigi að eiga einungis einn þriðja af einum þriðja fjármálamarkaðarins eins og þessi ríkisstjórn vill sýnir hvaða hagsmuna hún gætir helst.

Herra forseti. Í ljósi þess að einungis rúm tíu ár eru síðan hér varð fullkomið hrun í einkareknu bankakerfi velti ég fyrir mér af hverju liggi svona á að einkavæða bankana á seinni hluta þessa kjörtímabils. Getur verið að það eigi að tryggja ákveðnum aðilum bankana?

Herra forseti. Eitt sinn var mér sagt að sá sem á banka á Íslandi muni eiga Ísland. Er ekki komið nóg af samþjöppun eigna á Íslandi, sérstaklega í ljósi þess að 5% ríkustu landsmanna (Forseti hringir.) eiga næstum jafn mikið og hin 95%?