150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

íslenskt bankakerfi og sala á hlutum ríkisins í bönkunum.

[16:10]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég hygg að fáir fjölmiðlamenn búi yfir meiri þekkingu og betri skilningi á fjármálakerfinu en Hörður Ægisson, ritstjóri Markaðarins. Ég les a.m.k. allt sem hann skrifar af mikilli athygli og hygg að það væri ágætt ef aðrir þingmenn gerðu það líka. Ég ætla að fá að vitna með leyfi hæstv. forseta í brot úr skrifum hans í leiðara Fréttablaðsins í desember sl. Þar sagði hann orðrétt:

„Núverandi fyrirkomulag — óhagkvæmt bankakerfi sem skilar lélegri arðsemi og er að stórum hluta í eigu ríkisins — felur í sér slæma meðferð á fjármunum skattgreiðenda og undirstrikar mikilvægi þess að einhverjir aðrir taki á sig áhættuna af bankarekstri.

Það verður mikil áskorun fyrir bankana að skila betri arðsemi, ekki síst meðan opinberar álögur eru margfalt hærri en hjá öðrum evrópskum bönkum, á sama tíma og þeir leita allra leiða til að laga viðskiptamódel sitt að aukinni samkeppni frá nýjum leikendum í fjármálaþjónustu. Það mun taka tíma, minnst fimm til tíu ár, að koma bönkunum úr höndum ríkisins til fjárfesta sem vilja eiga þá til lengri tíma litið og mikilvægt er að vanda til verka og hámarka endurheimtur ríkissjóðs.“

Svo mörg voru þau orð og ég tek undir hvert og eitt einasta þeirra. Ég hygg að mesta áskorunin sem við stöndum frammi fyrir sé annars vegar að tryggja að til séu einhverjir aðilar sem eru tilbúnir að taka þá áhættu að eiga og reka banka og hins vegar að tryggja að hér séu bankar sem eru burðugir til að veita einstaklingum, heimilum og fyrirtækjum nauðsynlega þjónustu og, nota bene, veikt bankakerfi á Íslandi mun fyrst og síðast koma niður á einstaklingum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum vegna þess að stóru fyrirtækin eiga annarra kosta völ en að eiga viðskipti við (Forseti hringir.) svona veikburða bankakerfi.