150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

íslenskt bankakerfi og sala á hlutum ríkisins í bönkunum.

[16:22]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hér eru menn að tala um mögulega sölu á bönkum og það er krafa í þjóðfélaginu að koma á samfélagsbanka. Ég held að við eigum að skoða það algjörlega til hlítar. Við eigum að vera með banka sem eingöngu sinnir samfélagslegum verkefnum. Við eigum að læra af reynslunni. Ég óttast skelfilega þá hugsun að við förum af stað aftur að selja einkaaðilum bankana. Það þarf ekki að horfa langt aftur, fyrir stuttu vorum við að ræða smálánafyrirtækin — og við ráðum ekki við þau. Við ráðum ekki við að stoppa smálánafyrirtækin. Hvernig í ósköpunum ætlum við að ráða við það að selja bankana án þess að búið verði að breyta reglunum, án þess að við séum búin að aðskilja fjárfestingarbanka og viðskiptabanka? Hverjum ætlum við að treysta? Fjármálaeftirlitinu? Fjármálaeftirlitið var til staðar þegar allt hrundi hérna. Fjármálaeftirlitið sýnir að það virkar ekki. Þegar og ef við loksins komumst niður á einhverja lausn um að selja bankana myndi ég segja að það væri skilyrði að við settum þá niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Leyfum þjóðinni að ákveða. Er hún tilbúin að ákveða að selja enn eina ferðina bankakerfið á almennum markaði og leyfa einhverjum misvitrum aðilum að gambla með þessa undirstöðugrein okkar í peningamálum? Ef við förum út í þessa sölu ber okkur skylda til að passa upp á það núna að hún verði algjörlega gagnsæ og að þjóðin fái að hafa síðasta orðið.