150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

rafvæðing hafna.

177. mál
[17:41]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Hér er hreyft mjög merkilegu máli sem ég þakka fyrir að komið sé á dagskrá. Ég verð að segja að svona fljótt á litið er ég ósammála hæstv. ráðherra sem sagði áðan að orkuskipti í samgöngum á landi væru meira aðkallandi en að fara í orkuskipti í höfnum. Við höfum séð myndir bæði frá Ísafirði og Akureyri þar sem eru fjölmörg stór skip í einu í höfn og reykurinn frá þeim fær ekki greiða leið út og skemmir eða dregur úr loftgæðum fyrir alla sem þar eiga leið um.

Ég hvet því hæstv. ráðherra til að setja fram metnaðarfull markmið í þessu efni og tryggja að þar sem raforka er af skornum skammti, eins og á Ísafirði og Akureyri, verði gripið til sérstakra ráðstafana til að hægt sé að ná ásættanlegum markmiðum í orkuskiptum varðandi skip.