150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

mengun skemmtiferðaskipa.

143. mál
[17:57]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svarið og sömuleiðis öðrum þingmönnum fyrir þátttökuna í umræðunni. Sérstaklega kom hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson inn á mikilvægan punkt varðandi landtöku svokallaðra leiðangursskipa utan hafna og er það eitt af þeim atriðum sem ég mun koma sérstaklega inn á í þingsályktunartillögunni sem ég boðaði áðan.

Það er ljóst af svari hæstv. ráðherra að við getum gert miklu betur í mælingum á loftmengun við hafnir. Eins og hæstv. ráðherra kom inn á í svari sínu er hún ekki eingöngu út af skemmtiferðaskipunum heldur einnig yfir höfuð vegna þess útblásturs sem verður af skipum við hafnir. Ég fagnaði því einmitt að mælingar væru farnar af stað í Seyðisfirði en við eigum marga virkilega einstaka og flotta firði sem eiga það sameiginlegt að vera svolítið lokaðir og þar af leiðandi verður oft alveg sérstakt logn sem þýðir líka að loftmengun sem verður í þeim fjörðum á það til að stoppa svolítið við. Því er mikilvægt að við mælum við þær aðstæður og í þeim fjörðum. Ég nefni líka Ísafjörð og Akureyri. Þó að þar sé mælir eins og hæstv. ráðherra nefndi er hann ekkert sérstaklega vel staðsettur til að mæla þessa mengun. Við þurfum að minnka loftmengun á Íslandi líka sem verður til hvort sem er á landi eða sjó og það er mikilvægt að taka ákveðin skref í þá átt.

Ég fagna því auðvitað að draga eigi úr svartolíunotkun við Íslandsstrendur en mér dettur í hug í því samhengi að nú er unnið að því að banna svartolíu á siglingaleiðum um norðurskautið eins og hefur verið gert á suðurskautinu í nokkuð mörg ár. Mig langar að bæta því við að lokum hvort ekki væri snjallt að óska eftir því við Alþjóðasiglingamálastofnunina að íslensk landhelgi yrði tekin með inn í slíkt bann þannig að það væri einfaldlega bannað að nota svartolíu við Íslandsstrendur.