150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil ræða gleymda sveitavegi og gleymd byggðarlög í tillögu að samgönguáætlun. Ég vil skora á Alþingi og samgönguráðherra að svíkja ekki Árneshrepp og Strandamenn um marglofaðar vegabætur til að tryggja heilsárssamgöngur í byggðarlagið með vegabótum um Veiðileysuháls. Það er nístandi að sjá þeim framkvæmdum enn slegið á frest í tillögu að samgönguáætlun. Ef þingheimur kemst að þeirri kaldrifjuðu niðurstöðu er verið að slá af eitt brothættasta byggðarlag landsins, Árneshrepp. Fólkið á betra skilið.

Samgönguáætlanir hafi að mörgu leyti reynst marklaus plögg og marglofuðum samgöngubótum er ítrekað slegið á frest þegar þær virðast loksins vera í höfn. Enn er lagt til að fresta framkvæmdum á einum hættulegasta vegi landsins, Skagastrandarvegi, sem jafnframt er tenging við fjölfarinn Þverárfjallsveg. Þeim var frestað til 2022 en höfðu verið á áætlun 2020. Þannig hefur það gengið nánast frá aldamótum, alltaf handan við hornið. Þetta er sömuleiðis staðan með marga sveitavegi landsins sem voru sumir hverjir í betra standi fyrir mannsaldri síðan.

Þetta er ótæk staða. Það þarf að ráðast í átak í viðhaldi og uppbyggingu safn- og tengivega sem ekki sér stað í tillögu að samgönguáætlun, enn og aftur. Það þarf stefnubreytingu. Við þurfum aðgerðir strax ef við viljum tryggja byggð um allt land. Í tillögu að samgönguáætlun er nánast ekkert að frétta af viðhaldi og uppbyggingu sveitavega og varhugavert að treysta gefnum fyrirheitum inn í framtíðina. Allt Norðurland vestra, Vesturland og Strandir eru úti í kuldanum. Þessu verður að breyta, þessu verðið þið sem hér sitjið að breyta. Þau börn sem nú hossast í skólabílum um hálfónýta malarvegi, um Vatnsnes, Húnavatnshrepp, uppsveitir Borgarfjarðar, Dali, Strandir og víðar, verða uppkomin áður en samgöngubætur ná í þeirra heimabyggð að óbreyttu. Það getur ekki verið vilji samgönguyfirvalda og Alþingis.

Að lokum vil ég leggja til að þeir malarvegir sem skólaakstur er um verði skilgreindir sem forgangsvegir.