150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Í síðustu óundirbúnum fyrirspurnum spurði ég hæstv. forsætisráðherra og hæstv. félags- og barnamálaráðherra hvers vegna í ósköpunum öryrkjar þyrftu að hafa um 70.000 kr. minna á mánuði en láglaunafólk og hvort það væri eitthvað í fari öryrkja sem gerði að verkum að þeir ættu að fá þetta miklu lægri framfærslu. Er það vegna þess að þeir þurfa að borða minna? Hvað veldur því að kerfið er sett upp eins og öryrkjar þurfi mun minna til framfærslu en láglaunafólk?

Þið sem eruð í þessari ríkisstjórn getið breytt þessu. Þið getið farið eftir t.d. launaþróun ef það er hagstæðara fyrir þennan hóp. Hvers vegna fá öryrkjar ekki kjaragliðnun leiðrétta, kjaraleiðréttingu sem allir aðrir hafa fengið? Þeir sem þurfa mest á henni að halda fá hana ekki. Hvernig geta stjórnarþingmenn réttlætt að öryrkjar og ellilífeyrisþegar fái 50.000–70.000 kr. minna en láglaunafólk? Hvers vegna? Af hverju í ósköpunum þarf að mismuna fólki svona? Og enn ein mismununin er fram undan. Jólabónusinn. Þar verður kerfið einnig að mismuna, að því virðist bara af því að það getur það. Gleðilegan jólabónus svona almennt, en skertan jólabónus fyrir eldri borgara og öryrkja. Svo almennilega er hann skertur að hann verður fyrir marga núll, ekki króna í jólabónus. Jólabónus hjá TR í ár verður um 50.000 kr. Í fyrra var hann 43.000 kr., sem þurfti að skerða og alveg niður í núll. Jólabónus hjá VR í ár verður 92.000 kr. óskertur, nærri helmingi meiri. Eitthvað er að í okkar undarlegu sál, að við þurfum og teljum að við verðum að halda áfram að skerða og ganga þannig fram að fólk eigi ekki að fá það sama til að framfleyta sér, fái ekki það sama í jólabónus. Hvers vegna í ósköpunum? Hvernig dettur okkur þetta í hug?