150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

fríverslunarsamningar í Norður-Atlantshafi.

[14:11]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir þessa beiðni og þessa umræðu. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hv. þingmaður á orðastað við mig vegna þessara mála. Ég skal alveg viðurkenna að mér hefur fundist fara ótrúlega lítill tími hjá okkur í að ræða þessi miklu hagsmunamál. Ísland var eitt fátækasta ríki Vestur-Evrópu fyrir 100 árum. Við værum það enn ef við hefðum ekki fengið aðgang að öðrum mörkuðum og ef okkar markaðir væru ekki opnir. Ef menn skoða Íslandssöguna gengur hún að stórum hluta út á það að við erum að berjast fyrir frjálsri verslun. Menn hafa tilhneigingu til að gleyma því.

Ég ætla að reyna að svara á þessum stutta tíma spurningum hv. þingmanns. Staða okkar er góð. Ég ætla ekki að fara í gegnum EES-samninginn, við ræddum hann ítarlega um daginn. Við erum í Fríverslunarsamtökum EFTA og þar erum við búin að gera 30 samninga við 41 ríki og höfum í gegnum þá samninga aðild að markaði með 1,2 milljörðum manna. Þegar við gegndum formennsku í EFTA, sem við skiluðum af okkur á Sauðárkróki, fór tími okkar í skipulagsbreytingar á samtökunum og að skerpa áherslur. Síðan þá er búið að klára samning við Indónesíu og er verið að klára samning við Mercosur-ríkin. Það eru 550 milljónir manna. Samningar við Indland, Malasíu og Víetnam eru komnir langt, það er uppfærsla á tollabandalagi Suður-Afríkuríkja og uppfærsla á samningi við Chile er á leiðinni. Við höfum skrifað að okkar frumkvæði undir viljayfirlýsingu við Nígeríu. Moldóva verður fljótlega. Sömuleiðis væri hægt að ræða hér betur samning við Kanada sem við getum vonandi uppfært.

Ekki var spurt um Japan sérstaklega sem er eitt okkar mikilvægasta viðskiptaland en við höfum komið af stað efnahagssamráði sem leiðir vonandi til fríverslunarsamnings. Við erum að ýta á það, við erum komin lengra en við höfum nokkurn tímann komist áður en við erum ekki komin í mark. Við erum með tvíhliða samning við Kína, hann var að vísu gallaður að því leytinu til að Kínverjar gátu flutt vörur til okkar en við ekki til þeirra. Við náðum að klára það með undirskrift minni og tollamálaráðherra Kína á Selfossi fyrir nokkrum mánuðum þannig að við getum flutt út landbúnaðarafurðir, fiskeldisvörur og ýmislegt fleira. Í því eru miklir hagsmunir fyrir okkur.

Hv. þingmaður spyr um stöðu okkar gagnvart öðrum þjóðum og um það er ekki hægt að segja neitt annað en að við erum mjög frjálslynd þegar kemur að viðskiptamálum. Þegar menn voru að skoða það að sækja um aðild að Evrópusambandinu sáu menn mikinn mun. Ef við gengjum í Evrópusambandið færum við í tollaumhverfi þar sem er 26% tollfrelsi en við erum með 90%. Það þýddi með öðrum orðum að ef við gengjum í Evrópusambandið myndi verð hækka hér á vörum sem við erum ekki með neinn toll á í stórauknum mæli fyrir utan það náttúrlega að það hefði kostað mikið að flækja tollaumhverfið og fjölga tollvörðum.

Við höfum unnið markvisst að því að efla samstarf Íslands og Bandaríkjanna á sviði efnahags- og viðskiptamála. Við höfum lagt áherslu á að reyna að koma af stað aukinni verslun en sömuleiðis að fá aðgang að E1- og E2-áritun fyrir íslenska fjárfesta og fagaðila. Um daginn var ég einmitt í Washington og hitti þar mjög marga þingmenn, bæði demókrata og repúblikana, til að ýta á eftir því. Við þekkjum það að efnahagssamráð var sett af stað á fundi mínum og Mikes Pompeos í febrúar og síðan kom Mike Pence og við stýrðum þar saman efnahagssamráði í Höfða. Við erum komin miklu lengra en við höfum komist áður en betur má ef duga skal og við munum fylgja því eftir.

Bretland hefur af augljósum ástæðum verið forgangsmál hjá okkur, eins og menn þekkja. Það hefur hins vegar alltaf verið vitað að Bretar geta ekki farið í samningaviðræður fyrr en þeir eru gengnir úr Evrópusambandinu en ég held að við séum búin að leggja eins góðan grunn að því og mögulegt er. Við munum fylgja því eftir.

Hugmynd hv. þingmanns er mjög góð en við gerum það ekki öðruvísi en að allir hinir vilji vera með. Við vinnum hins vegar jafnt og þétt að því að efla samskipti við þessi ríki. Við erum t.d. með hóp varðandi Grænland sem er stýrt af Össuri Skarphéðinssyni, fyrrverandi ráðherra, og þar er líka hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir. Þau munu fljótlega koma með tillögur um aukin samskipti Íslands og Grænlands. Eimskip hefur opnað leið til Maine þar sem er orðið hlið núna sem mun tengjast þessu og margt fleira mætti nefna sem við getum kannski (Forseti hringir.) farið betur í á eftir. Við förum ekki í svona samning ein, við þurfum að fá alla hina með okkur en þangað til gerum við allt til að efla og styrkja tengslin, ekki bara viðskiptalega heldur líka á þeim sviðum sem hv. þingmaður vísaði til.