150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

fríverslunarsamningar í Norður-Atlantshafi.

[14:17]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég þakka þessa þörfu og tímabæru umræðu. Ekki þarf að fara mörgum orðum um mikilvægi sambandsins við Bandaríkin. Ráðherra hefur lagt áherslu á að efla það og styð ég viðleitni hans og aðgerðir í því efni. Ég fagna fréttum um að forseti Bandaríkjanna telji koma til greina að gera fríverslunarsamning við Íslendinga. Öllum hlýtur að vera ljóst að gerð slíks samnings er háð ýmsum þáttum. Í fersku minni er blaðamannafundur varaforseta Bandaríkjanna, Mikes Pence, fyrir utan Höfða í liðnum mánuði. Þar gerði hann lýðum ljóst að Bandaríkjastjórn teldi ekki heppilegt að Ísland tæki þátt í frumkvæði kínverskra stjórnvalda í verkefninu Belti og braut. Varaforsetinn lét við þetta tækifæri falla orð um afstöðu Íslendinga í þessu efni sem hæstv. utanríkisráðherra taldi nauðsynlegt að leiðrétta opinberlega. Samt var varaforseti nýgenginn af fundi með utanríkisráðherra þegar hann hélt þennan blaðamannafund. Vill ráðherrann ekki nota þetta tækifæri og upplýsa hvað hann sagði varaforseta Bandaríkjanna í Höfða um afstöðu Íslands til hins kínverska frumkvæðis?