150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

fríverslunarsamningar í Norður-Atlantshafi.

[14:20]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hugmynd þingmannsins um fríverslunarsvæði milli ríkja við Norður-Atlantshaf er áhugaverð. Að mörgu er að hyggja og ég ætla að halda mig við þrjú atriði, réttindi verkafólks, verslun með matvæli og umhverfismál. Það þarf að leggja jafn mikla áherslu á réttindavernd verkafólks og á að vernda hugverkarétt, flæði fjármagns og vara. Þó að ríkin sem hér eru undir séu rík, þróuð ríki er staða verkafólks gjörólík milli þeirra. Handan Atlantshafsins voru verkalýðsfélög markvisst brotin niður á níunda áratugnum af þeim flokki sem nú er við völd í Bandaríkjunum og hafa í raun aldrei náð sér eftir það. Það þarf að fara eftir þeim ráðleggingum sem Alþjóðavinnumálastofnunin hefur sett fram um gerð fríverslunarsamninga, að verkfærin til að leysa úr ágreiningi séu skýr.

Löndin sem þingmaðurinn nefnir hafa gjörólíka nálgun á viðskipti með matvæli. Bandaríkin hafa t.d. viljað ná markaðsaðgengi fyrir sínar landbúnaðarvörur við gerð fríverslunarsamninga. Þær vörur eru í mörgum tilfellum framleiddar með aðferðum sem eru kolólöglegar á Íslandi, til að mynda með að klórskola kjúklingakjöt, nota hormónagjöf í kjöt- og mjólkurframleiðslu ásamt því að nota sýklalyf í fóður. Að þessu þarf að hyggja.

Bændur hér á landi hafa margsagt að þeir séu ekki feimnir við samkeppni enda sé verið að keppa í sama leik. Íslenskir bændur framleiða ekki matvæli með því að moka í dýrin sýklalyfjum og vaxtarhormónum. Á tímum þar sem markmiðið er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hljótum við að þurfa að setja upp grænu gleraugun við gerð svona samninga. Viljum við auðvelda viðskipti sem leiða til þess að flutningar aukist milli landa? Ég er stórlega efins um að það sé lægra kolefnisfótspor af jógúrt framleiddri í Wisconsin en á Selfossi. Aftur á móti eru mikil tækifæri fólgin í svona samningi til að auðvelda útflutning á grænum lausnum fyrir fyrirtæki sem flytja út tæki, t.d. í sjávarútvegi sem minnka sóun og nota minni orku. Umhverfismál og sérstaklega loftslagsmál verður að hafa í huga við gerð fríverslunarsamninga. Förum okkur því hægt því að það er að mörgu að hyggja.