150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

fríverslunarsamningar í Norður-Atlantshafi.

[14:32]
Horfa

Elvar Eyvindsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu og hæstv. utanríkisráðherra fyrir innleggið. Utanríkisviðskipti og samskipti eru okkur alveg gríðarlega mikilvæg, eins og allir hafa rætt hér, og eru lykillinn að velsæld okkar og farsæld. Það má alveg fullyrða, en ég held jafnframt að mjög mikilvægt sé að líta til allra átta í þessum efnum eins og við höfum gert. Reynslan sýnir að okkur gengur furðuvel að ná samningum vítt og breitt og reyndar gengur okkur það betur í bandalögum en einum og sér, en það gengur líka.

Það sem ég vildi brýna er að um leið þarf að halda utan um hagsmuni okkar, ekki síst í sjávarútvegi, iðnaði og hugverkum, en við höfum líka hagsmuni í öðrum atvinnugreinum, eins og landbúnaði. Okkur hafa stundum verið mislagðar hendur í samskiptum og samningum vegna landbúnaðar. Við höfum fellt niður einhliða tollflokka og þar með hent frá okkur mögulegri samningsstöðu. Við höfum ekki hugað að stærðarmun á milli markaða og höfum stundum hleypt inn jafn mörgum kílóum og tonnum á móti okkar kílóum og tonnum og það þykir manni stundum ansi ósanngjarnt. Ég minni á að við þurfum ekki að skammast okkar fyrir að flytja ekki inn landbúnaðarvörur því að við flytjum inn mjög mikið af landbúnaðarvörum og ég efast um að nokkur þjóð sé jafn háð innflutningi á alls kyns matvælum og við erum nú þegar.

Auk þess minni ég á mikilvægi þess þegar gerðir eru svona samningar að halda opnum möguleikum sem við sjáum ekki, þ.e. að samningar séu hæfilega opnir þannig að hægt sé að vera með tímabundin tilraunaverkefni til að geta þróað hluti. Við eigum að geta þróað útflutning á grundvelli hreinleika, ímyndar, ferskleika og sérstöðu. (Forseti hringir.) Ég vildi brýna það.