150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

fríverslunarsamningar í Norður-Atlantshafi.

[14:34]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Mér fannst áhugavert hvernig þessi umræða fór af stað, þ.e. hvernig svör hæstv. ráðherra voru. Hann talaði minna um hugmyndina en meira um einstök gæluverkefni. Það rifjar upp hvernig utanríkismálin hafa verið hjá þeim flokki síðustu árin. Fyrir einu og hálfu ári notuðu hæstv. ráðherra og þingmenn flokksins hvert tækifæri til að berja á og tala niður EES-samninginn og samstarf okkar við Evrópuþjóðirnar. Nægir þar að nefna býsna áhugaverð og skemmtileg átök milli þáverandi hæstv. utanríkisráðherra Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Jónu Sólveigar Elínardóttur, þingmanns Viðreisnar, sem var formaður utanríkismálanefndar. Síðan kom orkupakki þrjú og þá þurfti að heyja varnarbaráttu í Valhöll. Þá var samningurinn talaður upp og ekkert annað komst að en evrópsk samvinna. Nú eru nokkrir mánuðir liðnir og aftur kominn gamli tónninn. Það á frekar að snúa sér að tvíhliða samningum við ríki sem eru í býsna mikilli krísu í utanríkismálum. Ég spyr hvort ekki sé kominn tími til að hæstv. utanríkisráðherra og þingmenn Sjálfstæðisflokksins taki loksins afstöðu sem byggir á hagsmunum þjóðarinnar (Gripið fram í.) í stað þess að reyna að nýta sér utanríkismálin til að ná aftur því sem þau hafa misst til Viðreisnar öðrum megin og Miðflokksins hinum megin. Ég bendi bara á í hvaða ógöngum þjóðir geta lent þegar flokksmenn taka hagsmuni flokksins síns fram yfir þjóðarinnar. Það nægir að líta til Bretlands og Bandaríkjanna í þeim efnum. (Utanrrh.: Veistu eitthvað …?)

(Forseti (SJS): Gefa ræðumanni gott hljóð.)