150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

fríverslunarsamningar í Norður-Atlantshafi.

[14:36]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við erum í umræðum um fríverslunarsamninga við ákveðin ríki á norðurslóðum sem virðist vera mikill draumur hv. þm. Óla Björns Kárasonar. Í staðinn fyrir að ræða fríverslunarsamninga yfir höfuð erum við í umræðum um hugmyndir hans og draum um fríverslunarsamning við þessi ákveðnu ríki. Eins og fram hefur komið í þessari umræðu erum við í mjög góðu samstarfi við þjóðir í Norður-Atlantshafinu á sviði viðskipta, náttúruverndar, menntunar, menningar, tækni og vísinda. Við erum í öflugu norrænu samstarfi. Við erum í Vestnorræna ráðinu sem er einstakur samráðsvettvangur á sviði vestnorrænnar menningar. Við erum með Hoyvíkursamninginn sem er líka einstakur samningur milli tveggja þjóða og við erum með fríverslunarsamninga í gegnum fríverslunarsamninga EFTA-ríkjanna sem þýða viðskipti við 1,2 milljarða manna. Svo erum við líka með einstakan fríverslunarsamning við Kína sem hefur m.a. leitt af sér gríðarlega fjölgun ferðamanna hingað til lands frá Kína og útflutning þangað á vörum og þekkingu frá Íslandi.

Eins og ég segi erum við hér í svolítið sérkennilegri umræðu og vangaveltum sem einkennast af hugmyndum hv. þingmanns og sömuleiðis frekar opnum vangaveltum hæstv. utanríkisráðherra sem hefur að mínu viti talað fjálglega um þann möguleika að efna til einhvers konar fríverslunarsamningsviðræðna við Bandaríkin og á sama tíma höfum við lagt áherslu á að efla viðskipti við Bandaríkin. Þegar við ræðum opinskátt og fjálglega um þessar hugmyndir finnst mér ansi margt gleymast, til að mynda áhrifin á íslenskan landbúnaðar. Hverjar eru hugmyndir bæði hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) og hv. þm. Óla Björns Kárasonar um áhrif fríverslunarsamnings við Bandaríkin á íslenskan landbúnað, fríverslunarsamnings við ríki sem gerir því miður minni kröfur til ákveðinna þátta (Forseti hringir.) landbúnaðar en til að mynda evrópsk? Þegar kemur að fríverslunarsamningum er mikilvægt að gera slíka samninga við ríki sem virða grundvallarréttindi, (Forseti hringir.) frjálsar verkalýðshreyfingar, lýðræði, réttarríkið og mannréttindi, tryggja umhverfisáhrifin — afsakið, herra forseti.

(Forseti (SJS): Ræðutíminn er löngu búinn.)

Það er það sem ég hef alltaf lagt áherslu á í öllum umræðum mínum um fríverslunarsamninga og geri áfram.

(Forseti (SJS): Forseti minnir á að virða tímamörk.)