150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

fríverslunarsamningar í Norður-Atlantshafi.

[14:39]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Það er svo merkilegt að viðskipti hafa verið helsta friðartæki okkar jarðarbúa á undanförnum árhundruðum, a.m.k. í þó nokkurn tíma. Það er ekki bara merkilegt út af því heldur líka ef maður skoðar hvar völd lágu fyrir árhundruðum síðan. Þá voru tengsl milli þjóða styrkt með hjónaböndum þegar konungar voru við völd en núna er það gert með viðskiptasamningum. Auðvitað eru dæmi um að slíkir samningar séu ekki óbrigðulir, það eru dæmi um viðskiptastríð eða alvarlegri átök sem tengjast viðskiptalegum hagsmunum, sérstaklega þegar kemur að spurningum um yfirráð á auðlindum. En af því að viðskiptasamningar hafa verið aðferð okkar í nútímanum til að glíma við það vald sem er til í alþjóðlegri pólitík ættum við að sjálfsögðu að nota þá sem mest og sem best til að nota þetta skilvirka tæki í baráttunni fyrir heimsfriði.

Í þeim viðskiptasamningum sem við erum aðilar að eru ákvæði um mannréttindi sem við þurfum að leggja meiri áherslu á. Við höfum verið að gera viðskiptasamninga við ríki þar sem við vitum að mannréttindum er ekki sinnt nægjanlega vel. Það ætti klárlega að brjóta í bága við skilmála viðskiptasamningsins en ekkert er gert. Hins vegar er þetta besta tækið sem við höfum og út af þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir í loftslagsmálum ættum við að nýta tækifærin þar til að koma einmitt loftslagsákvæðum inn í viðskiptasamninga fyrir framtíðina, nota þetta tæki til að ná árangri í þeim efnum, að ekki sé t.d. hægt að búa til mismunandi aðstöðu þar sem viðskiptaland okkar sé með minni álögur á losun kolefnis en við. Það býr til viðskiptalegan mismun sem við ættum að bregðast við á einhvern hátt og það gætum við gert í gegnum viðskiptasamninga.