150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

fríverslunarsamningar í Norður-Atlantshafi.

[14:48]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Öðruvísi mér áður brá. Ég vil fyrst svara hv. þm. Ólafi Ísleifssyni. Við Mike Pence vorum ekkert að ræða um þessi mál og öllum í efnahagssamráðinu var ljóst um hvað við vorum að ræða þannig að það þarf ekkert að fara meira yfir það.

Menn hafa almennt verið fylgjandi frjálsri verslun á Íslandi en hér komu forystumenn Samfylkingarflokkanna, Viðreisnar og Samfylkingarinnar, og afhjúpuðu sig. Þessir flokkar sem hafa á stefnuskrá sinni að afnema viðskiptafrelsi okkar Íslendinga með því að ganga í tollabandalag Evrópusambandsins hafa engan áhuga á fleiri viðskiptasamningum, ekki nokkurn. Þeir bera hér á borð að ég hafi talað EES-samninginn niður. Þegar ég kom inn, (Gripið fram í.) virðulegi forseti, fór ég strax í það — og hv. þingmaður sem hér kallar endalaust fram í, hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, var með mér í ríkisstjórn þegar ég setti af stað vinnu sem kom út í skýrsluformi, Gengið til góðs, um að gæta hagsmuna okkar í EES og sjá til þess að við viðhéldum þessu tveggja stoða kerfi sem er mjög gott.

Hverjir tóku niður varnarkerfið í Brussel? ESB-sinnar, þegar við sóttum um aðild að Evrópusambandinu. Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir. Þeir sem hafa talað niður EES-samninginn hafa alltaf verið ESB-sinnar, m.a. með því að halda því fram að við tökum inn 90% af gerðum sem eru hrein og klár ósannindi eins og allir vita. Og núna — (Gripið fram í.) Aftur kallar hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fram í. Af hverju skyldi það vera?

Niðurstaða þessarar umræðu er mjög skýr. Þeir flokkar sem kenna sig við frjálslyndi eru a.m.k. ekki frjálslyndir í viðskiptum. Það sem hefur einkennt okkur Íslendinga er að við höfum staðið saman í því að berjast fyrir frjálsum viðskiptum okkar Íslendinga. Hér erum við með tvo flokka sem gera allt sem þeir geta til að lágmarka viðskiptafrelsi okkar og hreinlega afnema það með því að ganga í tollabandalag. Þessi umræða hér í dag (Forseti hringir.) sýndi það sannarlega svart á hvítu. Ég verð að viðurkenna að ég átti ekki von á þessum taugatitringi út af sérstakri umræðu um fríverslun (Forseti hringir.) en þessir flokkar ákváðu núna með eftirminnilegum hætti að afhjúpa sig algjörlega. (Gripið fram í: Hver er afstaða …?)