150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

kosning umboðsmanns Alþingis skv. 1. gr. laga nr. 85 1997, um umboðsmann Alþingis, með síðari breytingum, til fjögurra ára, frá 1. janúar 2020 til 31. desember 2023.

[14:52]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Um kosninguna gildir ákvæði í 7. mgr. 82. gr. þingskapa sem segir að þegar kjósa á um einn mann séu þeir einir í kjöri sem tilnefndir eru og eigi hreyfa andmælum við því. Samkvæmt 1. gr. laga um umboðsmann Alþingis, nr. 85/1997, skal forsætisnefnd Alþingis tilnefna mann við kosninguna. Á fundi forsætisnefndar í gær var einróma samþykkt að tilnefna núverandi umboðsmann, Tryggva Gunnarsson, í embættið. Aðrar tilnefningar hafa ekki borist forseta innan þess frests sem lög ákveða og er hann því einn í kjöri.

Forseti hefur ákveðið að kosningin verði með atkvæðagreiðslukerfinu eins og þingsköp heimila. Henni má jafna við leynilega skriflega kosningu. Atkvæðagreiðslukerfið verður nú þannig stillt að töflurnar á veggjunum munu einungis sýna hverjir hafa greitt atkvæði en ekki hvernig þeir greiddu atkvæði. Hið sama gildir um geymsluminni tölvunnar.

Þeir sem kjósa Tryggva Gunnarsson ýti á já-hnappinn en þeir sem vilja skila auðu ýti á hnappinn sem merktur er Greiðir ekki atkvæði. Nei-hnappurinn er óvirkur. Gult ljós kviknar við miðhnappinn á borðum þingmanna þegar atkvæði hefur verið greitt, sama á hvorn hnappinn menn hafa ýtt. Eins kviknar aðeins gult ljós á veggtöflum.

 

[Gengið var til kosningar. Atkvæði féllu þannig að Tryggvi Gunnarsson hlaut 49 atkvæði en einn greiddi ekki atkvæði.]