150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2019 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

189. mál
[15:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2019 sem mælir fyrir um að ein tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins og tvær reglugerðir Evrópuþingsins og ráðsins á sviði fjármálaþjónustu verði teknar upp í EES-samninginn.

Tilskipun 2013/36/ESB og reglugerð ESB nr. 575/2013 mynda hryggjarstykkið í löggjöf Evrópusambandsins um lánastofnanir og verðbréfafyrirtæki. Með þeim var brugðist við vanköntum á lagaumgjörð fjármálafyrirtækja sem alþjóðlega fjármálakreppan leiddi í ljós og alþjóðleg viðmið um varfærniskröfur til lánastofnana, svonefndur Basel III-staðall, voru innleidd í Evrópu. Gerðunum er ætlað að treysta fjármálastöðugleika, einkum með auknum kröfum um magn og gæði eigin fjár fjármálafyrirtækja til að gera þau betur í stakk búin til að takast á við erfiðleika í rekstri. Reglugerð ESB nr. 2017/2395 breytti reglugerð ESB nr. 575/2013 með hliðsjón af alþjóðlega reikningsskilastaðlinum IFRS 9.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.