150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 72/2019 um breytingu á II. og IV. viðauka við EES-samninginn.

270. mál
[15:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 72/2019 sem mælir fyrir um að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2017/1369 frá 4. júlí 2017 um setningu ramma fyrir orkumerkingar og um niðurfellingu tilskipunar 2010/30/ESB verði tekin upp í EES-samninginn. Í reglugerð 2017/1369 er mælt fyrir um ramma sem gilda skal um orkutengdar vörur. Reglugerðin kveður á um merkingu þessara vara og veitingu staðlaðra vöruupplýsinga varðandi orkunýtni vara, notkun þeirra á orku og öðrum aðföngum þegar þær eru í notkun. Í reglugerðinni er einnig kveðið á um viðbótarupplýsingar um vörur og gerir þannig viðskiptavinum kleift að velja orkunýtnari vörur í því skyni að draga úr orkunotkun sinni.

Reglugerðin kemur í stað tilskipunar 2010/30/ESB um sama efni sem innleidd var með lögum nr. 7/2015, um breytingu á lögum um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl., nr. 72/1994. Reglugerðin hefur í meginatriðum sama gildissvið og tilskipunin en með henni eru reglurnar uppfærðar og skýrðar með hliðsjón af tæknilegum framförum undanfarinna ára í orkunýtni vara.

Reglugerðin gildir um allar vörur sem eru boðnar fram á innri markaðnum í fyrsta sinn, að meðtöldum notuðum vörum sem eru innfluttar og boðnar fram á innri markaðnum í fyrsta sinn. Með reglugerðinni er skali orkumerkinga endurnýjaður þar sem nauðsynlegt er að gera ítarlegri greinarmun á vörum vegna tækniþróunar í orkunýtni vara og auka þannig skilvirkni orkumerkinga.

Samkvæmt reglugerðinni gilda núgildandi reglur áfram um tilteknar vörur, sem hafa verið innleiddar með framseldum gerðum á grundvelli tilskipunarinnar, þangað til þær verða felldar úr gildi með nýjum reglum á grundvelli reglugerðarinnar.

Framleiðendur og innflytjendur vara inn á Evrópska efnahagssvæðið þurfa samkvæmt reglugerðinni að skrá vörur sínar sem bera orkumerkingar í svokallaðan EPREL-gagnagrunn. Íslenskir innflytjendur eru flestir dreifingaraðilar en flytja ekki vörur inn á EES-svæðið og ákvæðið er því ekki íþyngjandi fyrir þá.

Innleiðing reglugerðarinnar kallar á breytingar á lögum nr. 72/1994, um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi vörur sem tengjast orkunotkun. Frumvarpsdrög eru í smíðum hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti sem fer með þennan málaflokk í samvinnu við Mannvirkjastofnun.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu vísað til hv. utanríkismálanefndar.