150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 91/2019 um breytingu á XVII. viðauka við EES-samninginn.

272. mál
[15:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 91/2019, sem mælir fyrir um tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2016/943 frá 8. júní 2016 um verndun trúnaðarupplýsinga um sérþekkingu og viðskipti, svokölluð viðskiptaleyndarmál, gegn ólögmætri öflun, notkun og birtingu þeirra, verði tekin upp í EES-samninginn.

Tilskipun 2016/943 hefur að geyma reglur um verndun trúnaðarupplýsinga um sérþekkingu og viðskipti gegn ólögmætri öflun, notkun og birtingu þeirra. Með henni er stefnt að samræmingu á reglum Evrópuríkja um viðskiptaleyndarmál og þá sérstaklega það sem snýr að skilgreiningu á viðskiptaleyndarmáli, aðgerðum sem þörf er á til að vernda slík leyndarmál, lögmætri notkun þeirra sem og ólögmætri notkun. Þá tekur tilskipunin sérstaklega á ráðstöfunum og úrræðum til varðveislu á trúnaðarskyldu sem felst í viðskiptaleyndarmáli meðan á málarekstri stendur.

Tilskipunin kallar á að sett verði ný lög um viðskiptaleyndarmál. Samning frumvarps til innleiðingar á tilskipuninni stendur yfir í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Í frumvarpi til nýrra heildarlaga um viðskiptaleyndarmál verður kveðið skýrar á um lögmæta notkun viðskiptaleyndarmála og forsendur þess að hagnýting teljist ólögmæt.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.