150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 125/2019 um breytingu á IX. og XIX. viðauka við EES-samninginn.

273. mál
[15:10]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 125/2019 sem mælir fyrir um að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/17/ESB frá 4. febrúar 2014, um lánssamninga fyrir neytendur í tengslum við íbúðarhúsnæði og um breytingu á tilskipunum 2008/48/EB og 2013/36/ESB og reglugerð ESB nr. 1093/2010, verði tekin upp í EES-samninginn.

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/17/ESB hefur að geyma reglur um veitingu fasteignalána til neytenda í atvinnuskyni og breytir hún tilskipunum 2008/48/EB og 2013/36/ESB og reglugerð nr. 1093/2010. Staðan er sú að efnisákvæði gerðarinnar hafa að mestu leyti verið tekin upp í íslenskan rétt með lögum nr. 118/2016, um fasteignalán til neytenda. Markmið gerðarinnar er að tryggja neytendavernd við kynningu, ráðgjöf, veitingu og miðlun fasteignalána til neytenda. Markmið gerðarinnar er jafnframt að stuðla að ábyrgum lánveitingum og sporna við óhóflegri skuldsetningu neytenda.

Stefnt er að framlagningu frumvarpsins á yfirstandandi þingi sem ætlað er að ljúka innleiðingu tilskipunar í íslenskan rétt með breytingum á lögum um fasteignalán til neytenda, nr. 118/2016. Bæta þarf við ákvæðum um viðskipti lánamiðlara yfir landamæri og hlutverk ESA.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.