150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

fullgilding heildarsamnings um efnahagslega samvinnu milli EFTA-ríkjanna og Indónesíu.

275. mál
[15:16]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Herra forseti. Mig langar til að taka til máls um þessa tillögu. Eins og fram kemur í greinargerð er Indónesía fjórða fjölmennasta land heims með um 260 milljónir íbúa og fer þeim ört fjölgandi. Hagvöxtur í landinu var á fyrri hluta ársins um 5,1% og hefur verið nálægt því síðustu árin samkvæmt Alþjóðabankanum. Indónesía er því augljóslega þýðingarmikið viðskiptaland og á mikilvægi þess einungis eftir að aukast í framtíðinni. Landið er á stærð við heila heimsálfu og ríkt af auðlindum með fjölbreytta atvinnuvegi, hækkandi menntunarstig og fleira sem við horfum til og ótvíræð tækifæri eru í því að auka viðskiptin en ekki síður samskipti þjóðanna á menningarsviðinu sem öðrum sviðum. Fagna ég því þessari tillögu sérstaklega og að við séum að ná þetta langt með það. Ótrúlega lítil viðskipti eru í dag milli ríkjanna í ljósi stærðar Indónesíu og eins og kemur fram námu viðskiptin á árinu 2018 175 millj. kr. Héðan fóru aðallega sjávarafurðir og við keyptum vörur fyrir 1.274 millj. kr., aðallega raftæki, skó og fatnað. Það eru vissulega tækifæri á mörgum öðrum sviðum. Það er jarðvarmi í Indónesíu og margt líkt með þjóðunum.

Þarna er hægt að gera mun betur. Ýmislegt má betur fara, eins og víðar, ekki síst varðandi mannréttindamál, sjálfbærni og ýmislegt í kringum atvinnuvegina, og því skiptir máli að áhersla sé lögð á að stefnt sé að því að skapa ný atvinnutækifæri og bæta lífskjör, ásamt því að efla heilsuvernd, öryggi og umhverfisvernd, eins og kemur fram í greinargerð. Einnig kemur fram í greinargerð að samningsaðilar árétti þá skuldbindingu sína að styðja við og ýta undir þróun markmiða áætlunar Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til ársins 2030. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við eigum líka það samtal við Indónesíu og getum veitt af okkar þekkingu inn í það. Ég held að þetta geti falið í sér mun víðtækari samskipti en bara hörð viðskipti. Ég hvet eindregið til þess og mæli með samþykkt tillögunnar.