150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[15:49]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að fjalla um frumvarp til laga um Þjóðarsjóð. Það er bara hið besta mál að koma á þjóðarsjóði. En mér er eiginlega spurn: Á sama tíma og við erum að tala um að koma á þjóðarsjóði erum við að byggja sjúkrahús, hátæknisjúkrahús, fyrir tugi milljarða og við erum að reka á sama tíma kerfi sem við ráðum ekki við. Við erum með bráðamóttöku þar sem fólk er í lífshættu og ekki spurning hvort heldur hvenær, liggur við, eitthvað skeður. Hvenær er nóg komið? Er það þegar eitt mannslíf eða fjöldi mannslífa er í hættu? Er það mælikvarðinn? Ber okkur ekki skylda til þess að sjá til þess að kerfið virki og að sjúkrahús og bráðamóttaka séu í góðu lagi áður en við förum að safna í sjóði?