150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[15:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að við náum góðri umræðu um stjórnfyrirkomulagið og ég tek undir með hv. þingmanni þegar hann segir að við þurfum að gæta að kostnaðinum. Það er gert ráð fyrir að það sé stjórn sem tryggi eðlilega aðkomu þingsins að málefnum sjóðsins. Það finnst mér ekki óeðlilegt. Það er sömuleiðis gert ráð fyrir því að verkefnum sjóðsins sé hægt að úthýsa til þess einmitt að lágmarka yfirbyggingu og kostnað. Ég sæi það fyrir mér fyrstu árin að ekki væri mikil skynsemi í því að koma upp flóknu rekstrarfyrirkomulagi í kringum lítinn sjóð þannig að það verður meðal hlutverka stjórnarinnar að koma með tillögur um hvernig best verði gætt að því að eignir sjóðsins séu ávaxtaðar með hagkvæmum hætti.

Það er síðan hinn endinn á þessari umræðu hversu mikla áhættu megi taka með svona sjóð til að fá hámarksávöxtun af sjóðnum.