150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[16:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg reiðubúinn til að setja þetta í samhengi við eignatekjur ríkisins í heild vegna þess að þær hafa verið töluvert sveiflukenndar, til að mynda vegna fjármálafyrirtækja. Arðgreiðslur þaðan hafa verið mjög sveiflukenndar á undanförnum árum, eru að dragast saman núna. En þetta er að sjálfsögðu umtalsverð fjárhæð. Það er bara þannig. Og ef eitthvað er, áætlum við að arðgreiðslurnar í heild frá orkufyrirtækjum séu hóflega metnar í frumvarpinu, myndi ég segja.

Við erum hérna að ræða í andsvörum, bæði í fyrra andsvari og nú ég og hv. þingmaður, um mikið grundvallaratriði. Það er samhengið við ríkisfjármálin og hvort við séum með þessu að þrengja að getu okkar til þess að ráðast í ákveðin önnur verkefni, t.d. samgönguverkefni. Ég er að reyna að koma því að í sem stystu máli að arðgreiðslurnar færast tekjumegin. Greiðsla í sjóðinn færist ekki gjaldamegin. Svigrúmið í opinberu fjármálunum, í fjárlögum hvers árs, (Forseti hringir.) er þannig ekki skert með þessu því að þar erum við alltaf að horfa til þess hvaða markmið við höfum sett okkur varðandi afkomu.