150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[16:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins varðandi grænu áherslurnar sem birtast í frumvarpinu. Ég held ég að þær séu góð viðbót og koma m.a. til eftir umræður hér í þinginu. Rétt er að segja frá því að ég hef sem fjármálaráðherra aldrei fundið jafn mikla áherslu á grænu fjárfestingarnar og átti við núna á fundi hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þar sem yfir 50 fjármálaráðherrar komu saman og funduðu um loftslagsmálin. Þangað voru mættir allir yfirmenn helstu stofnana OECD, Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðabankans, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, seðlabankastjóri Englands. Þetta var eitt megin temað, ef maður má nota það orð.

Varðandi kröfur til þeirra sem myndu taka að sér verkefni fyrir sjóðinn og í samningagerð við stjórnina eða sjóðinn sjálfan þá er verið að horfa til þeirra sem eru sérhæfðir, það er í raun og veru verið að horfa til sérhæfðra sjóða í eignastýringu.