150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[16:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Líkt og ég rakti í framsöguræðu minni sjáum við fyrir okkur að þarna sé að hluta til um verkefni að ræða sem snúi að lausafjárstýringu. Þær aðstæður geta skapast í ríkisfjármálunum að ríkinu falli til háar fjárhæðir, t.d. vegna sölu eigna. Þá er ekki óskynsamlegt að það úrræði sé opið í þjóðarsjóðslögunum að tilteknum fjárhæðum sé ráðstafað beint inn til sjóðsins. Það gæti gerst vegna eignasölu, gæti gerst t.d. vegna gjaldeyrisvaraforða, að menn segðu: Við teljum að þeirri fjárhæð sem við erum með hér og er fjármögnuð af ríkinu sé vel varið inni í þessum tilteknu sjóði. Jafnvel þó að það lúti mjög ströngum skilyrðum að leysa þessa fjármuni aftur úr læðingi var þetta fyrst og fremst hugsað sem almenn heimild, ef þær aðstæður kynnu að skapast að ríkið teldi ávinning af því, frekar en að greiða upp skuldir eða gera aðrar ráðstafanir í lausafjárstýringu, (Forseti hringir.) að verja fjármunum inn í sjóðinn.