150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[16:20]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja eins og er um andsvar hæstv. fjármálaráðherra að ég get alveg verið sammála honum. Það er hið besta mál að hafa þjóðarsjóð og ég er alveg tilbúinn að taka þátt í að byggja hann upp ef við ætlum á sama tíma að sjá til þess að ríkisútgjöldin þenjist ekki út endalaust heldur verði þeim varið í heilbrigðiskerfið og þá sem þurfa á því að halda, þá sem eru í lægstu tekjuhópum þjóðfélagsins, að lífeyrisþegar fái að njóta þess að geta átt skammarlaust fyrir mat og lyfjum og húsnæði. Ef við getum séð til þess að fjármagna þetta væri þjóðarsjóður besta mál. Þá er ég alveg sammála því að vera með þjóðarsjóð. Við hljótum að vera að tala um peninga sem eru í þjóðarsjóði og það hlýtur að vera á valdi ríkisins og ríkisstjórnar á hverjum tíma hvernig þeim er varið. Það segir sig sjálft. En á meðan við erum með kerfi sem er gatslitið eins og er í dag, og við verðum að viðurkenna að heilbrigðiskerfið virkar ekki fullkomlega, á meðan það eru ákveðin kerfi hjá okkur sem virka ekki fullkomlega ber okkur skylda til þess að gera allt sem hægt er til að koma þeim í lag. Þegar afgangur er eigum við að leggja fyrir. Við vitum líka t.d. að ríkið er með gífurlegar skuldbindingar gagnvart lífeyrissjóðunum. Við berum oft saman við heimilin. Það er betra að borga niður skuldir ef maður á fyrir þeim en að leggja peninga inn í ávöxtun vegna þess að þá borgar maður yfirleitt hærri ávöxtunarkröfu af skuldunum heldur en inneigninni.