150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[16:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var ekkert að fara fram á það að hv. þingmaður myndi allar ræður Samfylkingarþingmanna. Ég var bara að vísa í eina tiltekna ræðu sem ég mundi. Ég sagði að það kæmi mér á óvart að heyra svona ólíkar skoðanir innan úr sama flokknum. Það fór drjúgur hluti ræðu minnar í að greina á milli sparnaðarsjóða annars vegar og eftir atvikum sveiflujafnandi sjóða og síðan hins vegar svona áfallasjóða eins og við erum að tala um hér, þjóðarsjóðs í þeirri mynd sem hér er verið að tala um. Ég sé reyndar ekki alveg muninn á því að byggja tekjur sjóðs upp á nýtingu sjálfbærra auðlinda í landinu eins og við erum að gera með okkar fiskveiðiauðlind og að byggja tekjurnar upp á grundvelli sjálfbærrar nýtingar orkuauðlindanna. Í hvoru tveggja tilfellanna erum við að tala um sjálfbærar auðlindir. Ég átta mig ekki alveg á því hvaða mun hv. þingmaður gerir á milli þessara tveggja þátta. Aðalatriðið er að hér erum við ekki að tala um þörfina fyrir að leggja til hliðar vegna auðlinda sem við erum að ganga á. Við erum ekkert að tala um það, því er ekki haldið fram í þessu máli. Því er hins vegar haldið fram í þessu máli að það sé góð ráðstöfun fyrir þjóðina til lengri tíma að byggja upp áfallaviðbúnað, að eiga varnir, eiga í sjóði til að þurfa ekki að taka á sig risahögg vegna þeirra áfalla sem kunna að dynja á okkur.

Það er sömuleiðis bent á það hér að aðrir valkostir — þetta er allt saman fórnarkostnaður. Allt sem maður gerir er fórnarkostnaður í þeim skilningi að maður getur ekki ráðstafað sömu krónunni tvisvar. Því er haldið fram hér að þetta sé betri ráðstöfun en að fara í skuldauppgreiðslu. Það er bent á að sjóðurinn muni að öllum líkindum bæta lánshæfismat okkar og mun styrkja stöðu ríkissjóðs gagnvart skuldaviðmiðum samkvæmt lögum um opinber fjármál. Undirliggjandi spurningin hér er sú hvort menn séu sammála því að það sé góð ráðstöfun til lengri tíma að byggja upp svona áfallaviðbúnaðarsjóð.