150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[16:46]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég held að ég hafi komið að áður tel ég það ekki slæma hugmynd að byggja upp sjóði. En ég tel þá útfærsla sem hæstv. ráðherra býður okkur upp á slæma hugmynd og er ekki sammála honum. Ég er alveg viss um að það eru fleiri sem taka undir með mér að það er skynsamlegra við þær aðstæður sem við búum við að greiða niður skuldir og stilla ekki upp sjóði við hliðina á skuldsettum ríkissjóði. Það er dæmi sem getur varla gengið upp. Ef við drögum úr skuldsetningunni bætum við líka lánshæfismatið. Við þurfum ekki að safna í sjóð til að sýna að við eigum einhverja peninga og borga síðan háa vexti hinum megin frá. Síðan höfum við ekki greitt innviðaskuldina sem við stöndum frammi fyrir eftir hrun, enda gerir hæstv. ríkisstjórn ráð fyrir því að ekki verði byrjað að safna í sjóðinn á meðan hún situr við ríkisstjórnarborðið heldur eigi sjóðsöfnunin að hefjast að fullu síðar, það er einhver önnur ríkisstjórn sem á að taka á því máli.

Ég held að það sé alveg ljóst að í því hvernig búið er að sjóðsöfnuninni, hvaða tekjur renna í sjóðinn og hvenær, liggur ágreiningurinn á milli mín og hæstv. ráðherra.