150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[17:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er eðlilegur þáttur umræðu um þetta mál að velta fyrir sér skilyrðunum og mjög nauðsynlegt að ræða þau. Ég tel að þau séu ágætlega skilgreind í 6. gr. og í greinargerð með 6. gr. er alveg ljóst að við erum ekki að tala um ráðstafanir sem eru venjulegar í neinu ríkisfjármálasamhengi heldur veruleg skakkaföll og sjálfsagt að hafa það sem hluta af málinu. En aðalatriðið er að okkur takist að botna hér í þinginu umræðu um það hvort það sé góð ráðstöfun að nýta tækifærið. Ég lít þannig á að það sé tækifæri núna þar sem eru að koma nýjar tekjur til ríkisins, nokkuð umfangsmiklar, á sama tíma og við höfum stillt skuldastöðunni í hóf, greitt upp mikið af skuldum og við höfum aðrar eignir sem við ættum að umbreyta í ný fjárfestingartækifæri. Spurningin er bara þessi: Þegar upp er staðið, vilja menn nýta væntar verulegar arðgreiðslur frá orkufyrirtækjum — og auðvitað er sérstaklega verið að horfa til Landsvirkjunar þar — til þess að búa í haginn fyrir framtíðina? Eins og maður heyrir í umræðunni er svo sem margt annað hægt að gera líka við fjármunina svo lengi sem menn hafa svigrúm í ríkisfjármálunum á þeim þjóðhagsgrunni sem við erum að vinna með til að fara í útgjaldamál. Það er endalaust hægt að velta því fyrir sér hvað annað ætti að gera. En stóra spurningin er þessi og ég er þeirrar skoðunar að þetta séu það sérstök tímamót núna þegar arðgreiðslur eru fram undan, að við verðum að botna umræðuna í þinginu. Ég er nokkuð viss um að verði ekki af lögfestingu þessa máls muni þingið verða mjög fljótt að venjast 10 milljarða sendingu frá Landsvirkjun og finna þeim fjármunum verkefni annars staðar. Þá verður tómt mál (Forseti hringir.) í framhaldinu að tala um að mynda svigrúm til að fara í sjóðsöfnun einhvern tímann síðar.