150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

tollalög o.fl.

245. mál
[17:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á tollalögum og fleiri lögum. Á haustþingi 2018 var innheimta opinberra gjalda, sem tollstjóri annaðist áður, færð til ríkisskattstjóra frá og með 1. maí 2019 með lögum nr. 142/2018. Sú samþætting á starfsemi stofnananna hefur gengið einstaklega vel þar sem áhersla hefur verið á bætta þjónustu og styrkari stjórnsýslu með einfaldari, skilvirkari og hagkvæmari álagningu og innheimtu opinberra gjalda að leiðarljósi.

Nú er lagt til með frumvarpi þessu að tollafgreiðsla og tollgæsla sem tollstjóri annast verði færð til ríkisskattstjóra frá og með 1. janúar 2020. Við það verður til ein öflug stofnun sem ríkisskattstjóri stýrir og er lagt til að hún nefnist Skatturinn og verði ríkisskattstjóra til aðstoðar við þau verkefni sem honum er falið að sinna lögum samkvæmt.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að Ísland búi sig undir að mæta þeim áskorunum og nýta þau tækifæri sem felast í örum tæknibreytingum. Þeim munu fylgja nýjar kröfur um menntun og hæfni starfsfólks og að til staðar sé umhverfi sem hvetur til nýsköpunar á öllum sviðum, þar með talið hjá hinu opinbera. Meðal þeirra áskorana sem starfsemi ríkisins þarf að bregðast við eru auknar kröfur almennings og atvinnulífs um sjálfsafgreiðslu og stafræna opinbera þjónustu. Hraðar breytingar krefjast þannig sveigjanlegra stofnanakerfis og fjölbreytts hóps starfsmanna sem þarf að búa yfir nýrri þekkingu og hæfni.

Mikilvægt er að skatt- og tollyfirvöld geti tekist á við þær breytingar sem eru að eiga sér stað, einkum hvað varðar aukna sjálfvirknivæðingu verkefna embættanna og aukið framboð stafrænnar þjónustu. Örar tæknibreytingar gera kröfur til skatt- og tollyfirvalda um breytt vinnulag, bætt afköst í skattframkvæmd og aukin gæði þjónustu og hagkvæmni í rekstri. Til að slíkt náist þarf að vera til staðar öflug rekstrareining sem getur tekist á við breyttar kröfur um veitingu opinberrar þjónustu. Samhliða þarf að bregðast við breyttum viðskiptaháttum, aukinni netverslun og rafrænum viðskiptum yfir landamæri sem kalla á eflingu og aukið samstarf þeirra ríkisstofnana sem að þessum málum koma og nýja nálgun við að tryggja tekjuöflun fyrir hið opinbera.

Meginefni frumvarpsins felur í sér þá breytingu að sameina verkefni á sviði tollafgreiðslu og tollgæslu, sem embætti tollstjóra annast nú, og þau verkefni sem embætti ríkisskattstjóra sinnir. Við sameininguna yrði embætti tollstjóra, sem ekki hefur verið skipað í síðan 1. október 2018, lagt niður og ríkisskattstjóri yrði þannig yfirmaður hins sameinaða embættis. Tollgæsluþættinum yrði þó ætluð nokkur sérstaða í hinu sameinaða embætti þar sem sett yrði upp sérstök eining undir stjórn tollgæslustjóra sem heyrði undir ríkisskattstjóra.

Gera má ráð fyrir því að mikil samlegðaráhrif og hagræði hljótist af fullri sameiningu ríkisskattstjóra og tollstjóra. Það á einkum við um rekstur ýmissa notendakerfa, vélbúnaðar, netumsjón og notendaþjónustu. Stærri eining er betur í stakk búin til að tryggja rekstraröryggi sem og öryggi í aðgangi og meðferð upplýsinga. Samhliða aukast möguleikar á betri samnýtingu upplýsinga og gagna við skatt- og tolleftirlit. Sameiginlegt aðgengi að upplýsingum úr skatt- og tollkerfum eykur jafnframt möguleika á markvissara og árangursríkara eftirliti. Auk þess skapast tækifæri til að efla starfsemi skatt- og tollyfirvalda á landsbyggðinni.

Með sameiningu ríkisskattstjóra og tollstjóra verður til ein öflug og leiðandi upplýsinga- og þjónustustofnun sem er betur í stakk búin til að takast á við áskoranir til framtíðar en tvær minni sjálfstæðar stofnanir. Ljóst má vera að í tengslum við fyrirhugaðar breytingar er mikilvægt að vel verði staðið að breytingastjórnun og að kynning og upplýsingaflæði til starfsmanna verði gott. Þá er nauðsynlegt, með tilliti til hags starfsmanna beggja ríkisaðila, að breytingaferlið taki sem skemmstan tíma. Ekki er gert ráð fyrir að störf verði lögð niður heldur verði þau flutt frá tollstjóra til ríkisskattstjóra. Óhjákvæmilegt er hins vegar að skipulag starfseminnar þróist í tímans rás og að skipulaginu verði þannig háttað að saman fari góð nýting fjármagns og skilvirk skattframkvæmd.

Gera má ráð fyrir því að af breytingunni verði samfélagslegt hagræði og fjárhagslegur ávinningur sem efla mun starfsemina og lækka kostnað við rekstur toll- og skatteftirlits í heild án þess að það bitni á þjónustu og afköstum skatt- og tollyfirvalda. Þá er gert ráð fyrir að sá kostnaður sem til fellur við tilfærsluna rúmist innan fjárheimildar í málaflokki 05 Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla.

Virðulegur forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.